*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 1. júlí 2021 09:10

Keypti skuldabréf fyrir 8,1 milljarð

Kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum hafa ekki verið meiri á einum ársfjórðungi frá því að magnbundin íhlutun hófst í maí í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildarkaup Seðlabanka Íslands (SÍ) á ríkisskuldabréfum námu 8,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi. Alls hefur Seðlabankinn keypt ríkisskuldabréf fyrir 21,4 milljarða króna frá því að peningastefnunefnd bankans boðaði magnbundna íhlutun þann 23. mars á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SÍ.

Kaup Seðlabankans á skuldabréfum ríkissjóðs hafa ekki verið meiri á einum ársfjórðungi en þau námu 5,7 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi 2021 og 6,7 milljarða á síðasta fjórðungi 2020.

Kaupverðið á síðustu þremur mánuðum skiptist þannig að keypt var í skuldabréfaflokknum RIKB25 fyrir 2,9 milljarða, RIKB28 fyrir 2,9 milljarða og RIKB31 fyrir 2,3 milljarða króna.

Seðlabanki Íslands hóf í byrjun maí 2020 kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði í samræmi við framangreinda yfirlýsingu peningastefnunefndar. Samkvæmt ákvörðun nefndarinnar getur heildarfjárhæð kaupanna numið allt að 150 milljörðum króna, en verklagið er með þeim hætti að Seðlabankinn tilkynnir fyrirfram um hámarksfjárhæð skuldabréfakaupa á hverjum ársfjórðungi.

Fyrir annan ársfjórðung var tilkynnt að heildarkaup bankans gætu numið allt að 20 milljörðum króna að kaupverði. Seðlabankinn hefur hins vegar ákveðið að heildarkaup á þriðja fjórðungi geti einungis numið 10 milljörðum króna og geta þau beinst að öllum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa í íslenskum krónum.