Fyrirtækið Norðursigling á Húsavík hefur bætt nýju seglskipi í flotann hjá sér. Skipið, sem nefnist Donna Wood, er tvímastra eikarskip smíðað árið 1918 og er því nærri 100 ára gamalt. Skipið var í áratugi notað sem vitaskip við strendur Danmerkur þar til því var breytt í farþegaskip árið 1990. Sjö káetur eru í skipinu sem rúma 12 farþega, en í því er einnig borðsalur fyrir 24.

Með tilkomu nýja skipsins mun Norðursigling eiga og reka átta skip, fjögur seglskip og fjóra eikarvélarbáta, sem gerðir eru út í hvalaskoðun. Í fyrra sigldi Norðursigling með um 50 þúsund ferðamenn.

Norðursigling er fjölskyldufyrirtæki, stofnað á Húsavík árið 1995 og var með fyrstu fyrirtækjum á Íslandi til að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir.

Hörður Sigurbjarnarson, eigandi Norðursiglingar og skipstjóri, segir að skipið verði sótt til Danmerkur í vor og því siglt til Húsavíkur.

„Ég reikna með því að Heimir sonur minn sigli skipinu heim,“ segir Hörður. „Donna Wood hefur verið í þjónustu við Nýhöfn í Kaupmannahöfn. Það hefur verið notað til siglinga um Eyrarsund og norður í Kattegat. Skipið er mjög glæsilegt og á sér ríka sögu. Það er smíðað sem vitaskip og þar af leiðandi er það alveg gríðarlega sterkbyggt. Danirnir smíðuðu vitaskipin á þessum tíma úr eik því hún reyndist betur en stál. Í mikilli þoku kom það nefnilega fyrir að þessi skip sigldu á vitana sem voru á floti. Þá voru menn ekki með þau siglingatæki sem við höfðum í dag. Eikin stóð sig betur í þessum árekstrum en stálið.“

Siglt um Scoresbysund

Hörður segir að skipið verði fyrst og fremst notað til siglinga við Grænland en einnig við strendur Íslands. Þrátt fyrir umtalsverðan vöxt í hvalaskoðun fyrirtækisins frá Húsavík hefur vöxtur orðið enn hraðari í ævintýraferðum Norðursiglingar. Það á ekki síst við um ferðir um Scoresbysund á Grænlandi.

„Það hefur verið mikil ásókn í siglingar við strendur Grænlands. Við fljúgum með ferðamenn í leiguflugi til Constable Point og þaðan förum við með ferðamenn í vikusiglingu um stærsta fjarðakerfi í heimi, Scoresbysund. Við vorum með tvö skip þarna í fyrra og sennilega kemur Donna Wood í staðinn fyrir annað þeirra. Það má segja að við höfum opnað þennan hluta Grænlands fyrir svona ævintýraferðum. Það hafði enginn vogað sér að prófa þetta af einhverri alvöru fyrr en við gerðum það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .