MP banki og fleiri fjárfestar hafa gengið frá kaupum á 27,5% eignarhlut Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum. Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum.

Þar kemur fram að gengið hafi verið frá kaupsamningi síðastliðinn mánudag. Eignarhluturinn hefur verið í söluferli frá því í febrúar árið 2012.

MP banki kaupir 10% hlut í fyrirtækinu. Aðrir kaupendur eru Lífeyrissjóður verslunarmanna (10%) og Garðar K. Vilhjálmsson (7,5%), lögmaður og eigandi bílaleigunnar Geysis. Lífeyrissjóður verslunarmanna er einnig þriðji stærsti hluthafi MP banka með 9,74% eignarhlut. Kaupverð nam um hálfum milljarði króna.

Aðrir eigendur í hluthafahópi Íslenskra verðbréfa hafa nú tæpan mánuð til stefnu vilji þeir nýta forkaupsrétt sinn til þess að stíga inn í kaupin. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hefur Straumur eignast fimmtungshlut í MP banka.