Fimm stærstu birtingarhúsin á Íslandi keyptu auglýsingar fyrir rúmlega 5,5 milljarða á árinu 2016. Þetta kemur fram í samantekt fjölmiðlanefndar um skiptingu birtingarfjár milli fjölmiðla. Er þetta aukning upp á 6,3% frá fyrra ári á föstu verðlagi.

Talið er að birtingarhús kaupi um helming auglýsinga á markaði. Má þar með gera ráð fyrir að heildarauglýsingasala hafi numið rúmlega 10 milljörðum króna á síðasta ári.

Í samantektinni kemur fram að mest hafi verið auglýst í prentmiðlum eða um 30,4%. Hlutur prentmiðla minnkaði þó um 3,6 prósentustig frá fyrra ári og hefur dregist saman um 7 prósentustig frá árinu 2014 þegar þegar hlutur þeirra nam 37,4.

Auglýsingar í sjónvarpi komu á eftir prentmiðlum en hlutdeild sjónvarpsauglýsinga nam 28,5% og jókst um 0,3 prósentustig frá fyrra ári. Innlendir vefmiðlar komu þar á eftir með 16,7% hlutdeild. Jókst hlutdeild þeirra um 1,5 prósentustig frá fyrra ári og hefur aukist um 4,3 prósentustig frá árinu 2014.