Sýn hefur keypt tæpa 21 milljón eigin bréfa eða um 7% hlut á tæpa 1,4 milljarða króna, þar á meðal að minnsta kosti 7,2 milljón hluti af lífeyrissjóðum, eða um 2,4% hlut. Verð á hlut var 67 krónur – dagslokagengi föstudagsins.

Fjarskiptafélagið tilkynnti um endurkaupin í morgun, en nú fyrir stuttu tilkynntu Lífeyrissjóður Verslunarmanna og Birta Lífeyrissjóður að þau hefðu selt 6 og 1,2 milljón hluti, í sömu röð. Live seldi fyrir rétt ríflega 400 milljónir króna, og Birta fyrir rúmar 80 milljónir.

Eftir viðskiptin á Lífeyrissjóður Verslunarmanna 8,4% hlut, en Birta 4,9%. Aðeins þarf að tilkynna viðskipti sem færa eignarhlut yfir eða undir margfeldi af 5% til Kauphallarinnar, og því gætu fleiri lífeyrissjóðir eða aðrir stórir eigendur hafa selt stóra hluti án þess að virkja flöggunarskylduna svokölluðu.

Endurkaupin voru tilkynnt síðastliðinn föstudag, og fóru fram með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi. Eftir að hafa fengið tilboð í sölu eigin hluta ákvað Sýn að taka tilboðum í áðurnefndan fjölda hluta. Nánar tiltekið var um 20.750.000 hluti að ræða, sem keyptir voru sem fyrr segir á genginu 67 krónur á hlut, sem var dagslokagengi föstudagsins, en gengið stendur nú í 68 krónum.

Félagið gerði nýlega upp sölu óvirkra innviða til bandarísks fjarskiptafélags, sem skiluðu því tæpum 7 milljörðum króna. Tilkynnt var á föstudag að þegar hefðu verið greidd upp langtímalán fyrir 2 milljarða króna, og ráðist yrði í endurkaup fyrir allt að 2 milljarða, eða sem næmi 10% hlut. Meirihluti þeirra hefur því þegar verið framkvæmdur með kaupunum sem tilkynnt voru í morgun.