Kanadíska farsímafyrirtækið BlackBerry keypti einkaþotu í sumar. Kaupverðið nam rúmum 20 milljónir dala, jafnvirði 2,4 milljarða íslenskra króna. Kaupin þykja nokkuð einkennileg í ljósi slæmrar stöðu BlackBerry. Í afkomuviðvörun fyrirtækisins sem send var út á föstudag kom fram að áætlað tap á öðrum ársfjórðungi muni nema tæpum einum milljarði dala, jafnvirði um 120 milljarða íslenskra króna. Þegar hefur verið gefið út að fyrirhugað er að segja upp 4.500 starfsmönnum BlackBerry til að draga úr rekstrarkostnaði. Það jafngildir um 40% af öllum starfsmönnum BlackBerry.

Breska dagblaðið Guardian segir um málið á vef sínum að um sé að ræða notaða Bombardier Global Express með rými fyrir 19 farþega. Gangverð á sambærilegum einkaþotum er á bilinu 25 til 29 milljónir dala.

Blaðið hefur upp úr tilkynningu frá BlackBerry að fyrir nokkrum árum hafi fyrirtækið keypt tvær einkaþotur. Þær hafi verið seldar fyrr á árinu og ákveðið að kaupa eina í staðinn og hafi hún verið afhent í júlí. Nú sé hins vegar búið að ákveða að selja einkaþotuna sem keypt var í sumar.