Alls bárust 76 tilboð að fjárhæð 31,8 milljónir evra í gjaldeyrisútboði Seðlabankans þar sem bankinn bauðst til þess að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur. Stærstur hluti upphæðarinnar, eða um 19,3 milljónir evra, komu í gegnum fjárfestingarleiðina. Þar var tilboðum tekið fyrir 14,9 milljónir evra en alls var tilboðum tekið fyrir 18,6 milljónir. Í hinu evru-útboðinu, þar sem fjárfestar gátu keypt í löngu ríkisskuldabréfi var tilboðum tekið fyrir 3,7 milljónir evra.

Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankans um niðurstöðu útboða dagsins að samtals hafi verið keyptar evrur að andvirði 4,4 milljarða króna. Gengi í viðskiptunum var 235 krónur fyrir hverja evru.

Í öðru útboði, þar sem bankinn keypti krónur í skiptum fyrir evrur, var útboðsverðið 236 krónur fyrir hverja evru. Alls bárust 26 tilboð að fjárhæð 7,3 milljarðar króna. Tilboðum var tekið fyrir 3,8 milljarða króna.

Næstu gjaldeyrisútboð bankans verða haldin 3. október, 7. nóvember og 19. desember næstkomandi.