FTX, æðstu stjórnendur rafmyntakauphallarinnar, og foreldrar stofnandans Sam Bankman-Fried keyptu í það minnsta 19 fasteignir á Bahamaeyjum að andvirði ríflega 121 milljónir dala, eða sem nemur 17 milljörðum króna, á síðustu tveimur árum. Reuters greinir frá.

Þó vitað hafi verið að FTX og starfsmenn þess hafi fest kaup á fasteignum á Bahamaeyjum, þar sem fyrirtækið kom á fót nýjum höfuðstöðvum í september 2021, þá segir Reuters að gögnin sýna í fyrsta sinn umfang fasteignakaupanna.

Meirihlutinn af kaupum FTX voru lúxuseignir við ströndina, þar á meðal sjö íbúðablokkir í dýra hverfinu Albany sem kostuðu nærri 72 milljónir dala eða 10,3 milljarða króna. Í afsalsbréfum segir að þessar eignir, sem keyptir voru af dótturfélagi FTX, hafi verið nýttar sem „íbúðahúsnæið fyrir lykilstarfsmenn“.

Opinber gögn fyrir hús við ströndina í Old Fort Bay hverfinu báru undirskriftir foreldra Bankman-Fried, lögfræðiprófessorana Joseph Bankman og Barbara Fried sem kenna við Stanford. Í svari við fyrirspurn Reuters sagði talsmaður hjónanna einungis að þau hafi verið að reyna að skila eigninni til FTX, sem sótti um greiðslustöðvun á dögunum.

„Bankman og Fried hafa, frá því áður en gjaldþrotameðferðin hófst, verið að sækjast eftir því að skila afsalinu til fyrirtækisins og bíða nú eftir frekari fyrirmælum.“