Matvælafyrirtækið the Emmi Group hefur keypt 25% hlut í Siggi´s skyr, sem Íslendingurinn Sigurður Kjartan Hilmarsson hefur framleitt í New York um árabil. Þetta er fullyrt á vefnum FoodBusiness News en þar kemur ekki fram á hvað hluturinn var seldur.

Á vefnum kemur fram að varan sé nokkurskonar jógúrt með lágt fituinnihald en rík af próteinum. Búist sé við að Siggi´s skyr verði selt fyrir 17 milljónir bandaríkjadala í ár, en það samsvarar tæpum 2 milljörðum íslenskra króna. Varan fáist í mörgum verslunum sem selji lífrænar vörur og heilsuvörur í Bandaríkjunum.

„Þetta er áhugavert tækifæri fyrir Emmi til að taka þátt í starfi framsækins og ört stækkandi fyrirtækis,“ segir Matthias Kunz, forstjóri alþjóðaviðskiptasviðs Emmi.  „Þar að auki hafa Emmi og Siggi´s sameiginlegan skilning á því hvernig á að gera góða mjólkurvöru sem er frábrugðin því sem keppinautarnir eru að gera,“ segir hann.

Siggi´s skyr verður hér eftir framleitt í Emmi Penn Yan L.L.C. jógurtverksmiðjunni í New York.