*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 28. maí 2018 13:48

Keyptu fyrir milljarð á Spáni

Íslendingar sækja meira í fasteignir á Spáni en verðið er frá 15 milljónum íslenskra króna.

Ritstjórn
Steinunn Fjóla Jónsdóttir er markaðsstjóri Íslandsmarkaðar hjá spænsku fasteignasölunni Medland.
Aðsend mynd

Íslendingar eru áhugasamir um fasteignir á Spáni og sækja í nýjar og fallegar eignir í sólinni, að sögn Steinunnar Fjólu Jónsdóttur, markaðsstjóra Íslandsmarkaðar hjá spænsku fasteignasölunni Medland.

Medland er ein stærsta fasteignasalan við austurströnd Spánar, en á ráðstefnu sem haldin var í Hörpu um helgina mættu nokkur hundruð manns til að kynna sér fasteignir og fasteignaviðskipti á Spáni. Með Medland í för voru fulltrúar frá átta spænskum byggingaraðilum við Costa Blanca og Costa Cálida sem kynntu fyrir ráðstefnugestum sín helstu verkefni.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við setjum upp svona stóra kynningu en viðbrögðin voru mjög góð og framar okkar björtustu vonum,“ segir Steinunn Fjóla en hún segir áhuga Íslendinga vera mikinn.

„Á síðasta ári keyptu íslenskir viðskiptavinir Medland alls 47 fasteignir á Spáni fyrir samtals 8 milljónir Evra eða rúmlega milljarð króna. Það hefur aldrei verið svo mikil sala áður. Íslendingar keyptu fleiri fasteignir hjá Medland en nokkur önnur þjóð á síðasta ári en við erum með mikið af viðskiptavinum frá Norðurlöndunum og norður- og mið Evrópu.

Íslendingar sækja ýmist í íbúðir í góðum kjörnum með aðgangi að sundlaug eða falleg einbýli með einkasundlaug. Staðsetningin við Miðjarðarhafið býður upp á meiri lífsgæði og heimurinn er orðinn lítill, það er auðvelt að ferðast á milli landa. Fólk sækir í birtuna og veðurblíðuna og ekki spillir verðlagið fyrir."

Hún segir að verð á íbúðum sé misjafnt en Medland bjóði upp á nýjar fasteignir um alla austurströndina á verðum frá um 15 milljónum króna og upp úr.