Vilhjálmur Vilhjálmsson stjórnarformaður Hampiðjunnar hefur keypt 1,5 milljón hluti í félaginu á genginu 94 krónur á hlut, alls 141 milljón króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Vilhjálmur á nú tæplega 6,5 milljón hluti að andvirði ríflega 600 milljónir króna, eða sem nemur 0,3% hlut í félaginu, sem alls er metið á 47 milljarða. Vilhjálmur hefur verið stjórnarformaður síðan 2013. Þá keypti Hlér ehf., sem er í eigu Guðmundar Ásgeirssonar stjórnarmanns í Hampiðjunni, 500 þúsund hluti á sama gengi, á 47 milljónir.

Hlutabréfaverð félagsins var óbreytt í viðskiptunum, en það hefur nú rétt um tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra.

Alls skiptu 4,5 milljón hlutir um hendur í dag fyrir 423 milljónir króna í tveimur viðskiptum, en ekki bárust tilkynningar um aðra kaupendur en stjórnarmeðlimina. Ekki hefur verið jafn mikil velta með bréfin á einum degi síðan í ágúst, en almennt eru viðskipti með bréfin lítil, sökum lítils flots. Af tæpum 250 viðskiptadögum í fyrra voru aðeins viðskipti á 39 þeirra, og heildarvelta síðasta árs náði ekki milljarði.

Hagnaður félagsins nam 2,3 milljörðum króna í fyrra og jókst um 13% milli ára. Veltan nam 25 milljörðum, en sé leiðrétt fyrir áhrifum dótturfélaga sem inn í samstæðuna komu á árinu drógust tekjur saman um milljarð vegna áhrifa heimsfaraldursins.