Bræðurnir Níels og Trausti Hafsteinssynir tóku á dögunum við rekstri íbúðahótelsins Castle Harbour á Tenerife en eyjan hefur verið einn vinsælasti áfangastaður sólarþyrstra Íslendinga síðustu ár. „Þetta er í raun leigufélag nema við eigum ekki íbúðirnar heldur rekum þær,“ segir Níels. „Þetta er íbúðakomplex með 100 íbúðum, gestamóttöku, sundlaug, hótelbar og öllu því sem íbúðahóteli fylgir. Það eru hins vegar allt einstaklingar sem eiga íbúðirnar en okkar fyrirtæki sér eitt um reksturinn á þeim, allt frá bókunum til þrifa. Hótelið er í Los Cristianos sem er eitt aðalsvæðið á eyjunni og mörgum Íslendingum kunnugt.“

Níels segir það hafi í raun verið ævintýraþrá sem fékk hann til þess að flytjast til Tenerife auk þess sem tími hafi verið kominn á að gera eitthvað nýtt. „Trausti er búinn að búa á Tenerife í 10 ár og hefur starfað sem fararstjóri hjá Heimsferðum. Hann var búinn að reyna að fá mig í einhvern rekstur hérna í nokkur ár sem ég lét svo verða af í vor. Við erum þó búnir að vera í þessum bransa lengi. Bæði hefur hann starfað lengi sem fararstjóri sem ég hef einnig gert líka síðustu ár.  Þá var ég í 20 ár á Hótel Sögu auk þess að eiga veitingastaði heima á Íslandi.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað út má rekja til þess að ég er búinn að eiga á annan tug veitingastaða á Íslandi og var farinn að hugsa um að gera eitthvað nýtt en fannst umhverfið í veitinga- og hótelgeiranum ekki nógu spennandi og markaðurinn í raun mettur. Þetta kom þannig upp að við vorum búnir að leita að verkefnum hérna úti. Konan sem átti þetta á undan okkur vildi selja og þegar þetta kom upp hringdi Trausti í mig og við gengum frá þessu á nokkrum dögum,“ segir Níels.

Færa reksturinn inn í nútímann

Níels segir að þeir hafi keypt rekstur sem var í fullum gangi. Það hafi þó þurft að gera breytingar til að færa reksturinn inn í nútímann. „Við tókum við stöðugum rekstri í fullum gangi sem var þó svolítið gamaldags. Áður en við tókum við voru hlutirnir gerðir svolítið upp á gamla mátann og voru bókanirnar meðal annars skráðar í pappírsbækur. Við höfum því verið að innleiða nýtt tölvu- og bókunarkerfi auk þess sem við erum nýbúnir að opna íslenska síðu sem heitir tenerent.is þar sem allar upplýsingar eru á íslensku. Við höfum því verið að nútímavæða vinnubrögðin og setja 2018 inn í stað 1998.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu Icelandair.
  • Viðtal við forstjóra Meniga.
  • Úttekt á fasteignasköttum sveitarfélaganna.
  • Viðtal við Arnar Laufdal Ólafsson, forstjóra Kaptio.
  • Sérblaðið Orka & iðnaður fylgir Viðskiptablaðinu.
  • Óðinn skrifar um launamun kynjanna.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um Kvennafrídaginn.