Tveir sjóðir í eigu Stefnis, dótturfélags Arion banka, keyptu hlutabréf í VÍS á föstudaginn fyrir alls rúmar 355 milljónir króna að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sjóðirnir Stefnir ÍS-5 og Stefnir ÍS-15 voru að auka hlut sinn í VÍS, en alls áttu sjóðir Stefnis 123,5 milljónir hluta fyrir kaupin. Alls voru keyptar rúmar 36 milljónir hluta í félaginu og eftir kaupin eiga sjóðir Stefnis því um 6,38% í VÍS. Stefnir á sjálfur ekki eignarhlut í VÍS með beinum hætti.

Töluverð viðskipti voru með bréf VÍS á föstudaginn og nam heildarvelta með bréfin 654,3 milljónum króna, en gengi bréfanna lækkaði um 0,50%.