Akta sjóðir hf. keypti á fimmtudag síðastliðinn tæpan 1,3% hlut í tryggingafélaginu VÍS, fyrir hönd sjóða í rekstri félagsins. Um 24,4 milljón hluti var að ræða, sem voru 461 milljónar króna virði miðað við dagslokagengi þann dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu .

Félagið hélt áður á ríflega 1,3% hlut, auk þess að vera aðili að framvirkum samningum sem munu, eða í það minnsta geta, skilað félaginu 2,5% eignarhlut, og því fór heildarhlutur þess og atkvæðisréttur yfir 5% við viðskiptin í síðustu viku, sem gerir þau flöggunarskyld.

Síðan viðskiptin áttu sér stað hefur gangvirði bréfa VÍS hækkað um 1,1 krónu í sléttar 20, eða um tæp 6%. Sjóðir Akta hafa því þegar hagnast um 27 milljónir króna á viðskiptunum.

Samkvæmt nýjum lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa skal hlutafjáreigandi tilkynna þegar atkvæðisréttur fer yfir eða undir 5% eða margfeldi af því „eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskylda stofnast“. Akta hafði því til dagsins í dag til að tilkynna viðskiptin, en samkvæmt eldri útgáfu laganna hefði fresturinn runnið út á hádegi daginn eftir viðskiptin.