Kaup Álandsbanka á Kaupþingi í Svíþjóð hafa ekki reynst ferð til fjár samkvæmt frétt sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri. Þar kemur fram að bankinn hafi tapað um 10 milljónum sænskra króna á mánuði í kjölfar kaupanna sem framkvæmd voru í mars 2009. Þá greiddi Álandsbanki 414 milljónir sænskra króna fyrir sænska starfsemi Kaupþings. Svo virðist sem Álandsbanki hafi keypt köttinn í sekknum

Síðan hefur starfsmönnum verið fækkað um 90 en DI hefur eftir Peter Wiklöf, forstjóra Álandsbanka, að hann sjái ekki eftir kaupunum á Kaupþingi. „Við vonumst til þess að koma fleyinu á réttan kjöl,“ segir hann. Bankinn mun ekki greiða út arð að þessu sinni og mun það vera í fyrsta skipti í 90 ár.

Þess má geta að Ingvar Kamprad, eigandi IKEA og einn auðugasti maður heims, er talinn í hópi helstu eigenda Álandsbanka.