Bandaríski tölvuframleiðandinn Hewlett-Packard (HP) hefur neyðst til að færa niður 8,8 milljarða dala, jafnvirði rúmra 1.100 milljarða íslenskra króna, af virði bresks fyrirtækis sem HP keypti í fyrra. Stjórnendur HP voru gagnrýndir fyrir það að hafa greitt of hátt verð fyrir fyrirtæki, sem skilaði litlum tekjum í kassann miðað við kaupverðið. Komið hefur í ljós að villur í bókhaldi hafi látið fjármál þess líta betur út en raunin var.

Fyrirtækið heitir Autonomy og greiddi HP 10,24 milljarða dala fyrir það eða sem svaraði til 25,5 punda á hlut. Greitt var fyrir með reiðufé. Félagið var skráð í bresku kauphöllina og var verðið 64% yfir lokaverði félagsins í ágúst á síðasta ári þegar viðskiptin voru innsigluð.

Á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal er haft eftir Meg Whitman, forstjóra HP, að fjármálayfirvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi verið látin vita um málið og rannsóknar krafist. Whitman var ekki forstjóri HP þegar Autonomy var keypt.

Gengi hlutabréfa HP hefur látið á sjá vegna málsins en það hrundi um tæp 12% þegar markaðir opnuðu vestanhafs í dag. Um helmingur af markaðsverðmæti fyrirtækisins hefur gufað upp á árinu.