Kaupverð á Laugavegi 105, sem áður hýsti Hlemmur Square hostel, er 775 milljónir króna. Áætlað er að breyta húsnæðinu í íbúðir. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Sjá einnig: Húsnæði Hlemms Square til sölu

Kaupandi húsnæðisins er Hlemmur ehf. sem stofnað var í júní á þessu ári. Skráðir eigendur félagsins eru Sverrir Steinn Sverrisson, Guðmar Valþór Kjartansson og Sveinn Jakob Pálsson en eigendahópurinn er þó enn í mótun samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Sá hluti hússins sem félagið kaupir er á fyrstu hæð og á 3. til 5. hæð, samtals ríflega 2.400 fermetrar.

Félagið keypti húsnæðið af rekstraraðila hostelsins, Nikolaus Willi Ortlieb. Í janúar á síðasta ári fór ríkisskattstjóri fram á nauðungarsölu húsnæðisins vegna skulda við skattyfirvöld. Á þeim tíma var fasteignamat húsnæðisins 684 milljónir.

Á annarri hæð hússins eru 11 íbúðir og á sjöttu og efstu hæð þess eru tvær íbúðir. Embætti skipulagsfulltrúans á höfuðborgarsvæðinu hafði áður tekið vel í umsókn eigenda hússins um að hafa leyfi fyrir 45 til 49 íbúðum í húsinu. Því er líklegt að innréttaðar verði á bilinu 32 til 36 íbúðir til viðbótar í húsinu.

Þá segir einn eigenda hússins í viðtali við Morgunblaðið að hugmyndin sé að reisa hagkvæmar íbúðir frekar en lúxusíbúðir.