Samantekt á útgjöldum vegna sérfræði- ráðgjafar- og kynningarstarfa fyrir velferðarráðuneytið á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra var birt í dag sem svar við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur þingkonu Vinstri grænna. Kostnaðurinn nemur 129,5 milljónum króna á tímabilinu 1. janúar 2014 til 31. október 2015.

Stjórnsýslunefndir, norrænt samstarf og fjölmiðlaráðgjöf

Meðal þeirra sem Félagsmálaráðuneytið keypti þjónustu af var formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, Ágúst Bjarni Garðarsson, en hann hlaut 2,9 milljónir króna frá velferðarráðuneytinu vegna vinnu nefndar um stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar.

Þá hlaut Siv Friðleifsdóttir heilar 19,6 milljónir króna fyrir ráðgjafarstörf varðandi norrænt samstarf, formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni og vinnu í velferðarvaktinni frá árinu 2014.

KPMG veitti ráðuneytinu svo þjónustu fyrir 25 milljónir króna, vegna aðstoðar við tillögu og frumvarpsgerð vegna framtíðarskipan húsnæðismála. Einnig keypti ráðuneytið þjónustu af fjölmiðlaráðgjafarfyrirtækinu Argus ehf. fyrir 4,4 milljónir króna.

Heilbrigðismála- og menntamálaráðuneyti kaupa fyrir 203 milljónir

Heilbrigðisráðuneytið og Menntamálaráðuneytið birtu einnig tölur varðandi sömu þjónustukaup. Samtals keypti Heilbrigðismálaráðuneytið þjónustu fyrir 78 milljónir króna á tímabilinu, og Menntamálaráðuneytið fyrir 125 milljónir króna.

Ráðgjöf varðandi verkefni Menntamálaráðuneytisins, „Þjóðarátak um læsi” kostaði ráðuneytið rétt rúmlega 24 milljónir samtals, en þrjú ráðgjafarfyrirtæki unnu fyrir ráðuneytið varðandi átakið.