Innlendur kostnaður álfyrirtækjanna nam 92 milljörðum króna í fyrra og hækkaði um 10 milljarða frá árinu 2014.  Þetta kom fram í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar, stjórnarformanns Samáls og forstjóra Alcoa Fjarðaáls, á ársfundi Samáls á miðvikudaginn. Hann sagði að miðað við meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju hefðu álverin keypt orku fyrir 41 milljarð króna í fyrra og að skattar og opinber gjöld hefðu numið 6 milljörðum.

„Álverin fluttu út 858 þúsund tonn á árinu 2015 og alls námu útflutningstekjur um 237 milljörðum, sem voru um 38% af vöruútflutningi þjóðarinnar," sagði Magnús, sem benti á að samtals hefðu um 1.450 starfsmenn unnið hjá fyrirtækjunum á síðasta ári. Við það bætast síðan fastir starfsmenn verktaka á álverssvæðunum sem voru um 530 talsins. „Laun og launatengd gjöld námu um 16 milljörðum en kjarakannanir hafa ítrekað sýnt að álfyrirtækin greiða umtalsvert hærri laun en meðallaun sem greidd eru á almennum vinnumarkaði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .