*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 24. júlí 2019 18:56

Keyptu Wow-hjólin úr þrotabúinu

City Bike stefnir á að bjóða upp á hjólaleigu í samstarfi við borgina eða hótel, auk rafknúinna Segway og hlaupahjóla.

Höskuldur Marselíusarson
Eva Björk Ægisdóttir

Adam Karl Helgason, framkvæmdastjóri City Bike segir félagið hafa ætlað sér að fylla í það skarð sem myndaðist í hjólaleigu fyrir ferðamenn í borginni við fall Wow air, eftir að hafa gert tilboð í og fengið öll 100 hjól flugfélagsins.

Félagið er annað tveggja sem hafa boðið í rekstur hjólaleigu í Reykjavík sem borgin hyggst styrkja um fimm milljónir króna næstu tvö árin, en þó það gangi ekki eftir eru þeir hjá City Bike með ýmsar aðrar hugmyndir um nýtingu hjólanna.„Helgi Ólafsson faðir minn fær þessa flugu í höfuðið að þrotabú Wow air hljóti að hafa hjólin til sölu, og fyrst enginn annar er að sinna þessari þjónustu af hverju ættum við ekki að taka það að okkur, enda hefur hana sárlega vantað hérna heima,“ segir Adam Karl.

„Þetta eru 100 hjól sem við hugmyndin var að setja upp á átta stöðvum miðsvæðis í borginni. Við þurftum aðeins að breyta útlitinu á þeim og merkingunum en þau eru ennþá með Wow litinn. Þetta eru sérlega harðgerð hjól sem eiga að þola alls konar hnjask og svo springa til dæmis dekkin ekki. Hugmynd okkar er að setja hjólin upp á flestum af sömu stöðunum  og Wow hjólin voru á áður, við Perluna, Arnarhól, Laugardalinn og svo framvegis, þó þannig að styttra væri á milli, þannig að eftirsóknarvert sé að taka ákveðinn hring til að skoða borgina.“

Leita eftir samstarfi við hótel ef borgin velur hina

Adam Karl segir félagið vera í sambandi við City Bike hjólaleiguna úti í heimi svo hægt verði að reka hjólaleiguna í gegnum smáforrit eða farsímaapp þeirra, sem jafnframt fylgjast með staðsetningu hjólanna. Ætlunin er að ná til ferðamanna, en ef ekki gengur eftir að ná samkomulagi við borgina vonast þeir hjá City Bike eftir að semja til að mynda við hótel borgarinnar, en einnig vilja þeir ná til Íslendinga í nágrenni hótelanna.

„Þá gætu ferðamenn gripið í hjólin fyrir utan hótelin á fljótlegan, þægilegan og hentugan máta og skilað þeim til að mynda fyrir framan annað samstarfshótel. Svo væri frábært að fá Íslendingana til að nota þetta jafnmikið og ferðamenn hafa gert,“ segir Adam Karl.

Tala við eitt tekjuhæsta félag heims

Adam Karl segir City Bike í viðræðum við erlenda aðila til að bjóða upp á rafknúin hlaupahjól og svokölluð Segway hjól enda hafi borgin gefið grænt ljós á slíka þjónustu óháð útboði hjólaleigunnar.

„Þá verður þetta eins einfalt og hægt er því þessi hjól þurfa engar sérstakar stöðvar, heldur getur fólk skilið við þau og gripið til þeirra hvar sem er, svo fremi sem þau séu ekki skilin eftir í gangveginum,“ segir Adam sem segir mögulegt að fá Segway hjólin frá Þýskalandi strax í næsta mánuði.

„Eitt af þeim fyrirtækjum sem við höfum talað við er Bird sem er svokallað Unicorn fyrirtæki og eitt tekjuhæsta fyrirtæki heims á sínu fyrsta starfsári. Þeir eru með hjólin sín út um alla Evrópu og Bandaríkin. Það góða við svona hjól er aukið öryggi en hægt er að stilla hámarkshraðann eftir svæðum svo þau fari kannski ekki hraðar en 15 km á klukkustund í þéttri miðborginni en hraðar til dæmis á hjólastígunum við Sæbrautina.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um frumvarp um ríkisaðstoð sem getur ýft fjaðrir vegna framsals valds til Evrópu
  • Netflix efnisveitan er ekki að ná markmiðum sínum og ógnir steðja að
  • Rætt er við kjarnyrtan bandarískan viðskiptaprófessor sem er óhræddur við að kalla falleg orð bull
  • Baldvin Már Hermannsson forstjóri Air Atlanta er í ítarlegu viðtali
  • Stórfé er í húfi hjá íslensku knattspyrnuliðunum í forkeppni Evrópudeildarinnar sem og vegna breyttra reglna
  • Langt umsóknarferli hjá ESB vegna nýfæðisskráningar hefur tafið uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækis
  • Ólafur Örn Nielsen fráfarandi framkvæmdastjóri Kolibri ræðir um nýja ráðgjafafyrirtækið og áhugamálin
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ekkifréttir af fjármálaráðherra