Tilkynnt var um 7.573 milljón króna utanþingsviðskipti með bréf Bakkavara Group á genginu 55 krónur á hlut fimm mínútur fyrir lokun markaðar og eru viðskiptin ekki verðmyndandi en gengi félagsins er 53,6 við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni.

Ekki hefur verið tilkynnt um kaupanda né seljanda. Exista keypti fyrir 4,5 milljarða í Bakkavör Group þann 11. ágúst og fyrir 593 milljónir þann 16. ágúst.

"Þessi kaup endurspegla trú Exista á Bakkavör og framtíðrmöguleikum félagsins. Hlutfallsleg eign Exista í Bakkavör hefur minnkað í tengslum við aukningu hlutafjár á undanförnum misserum og teljum við nú vera rétta tímann til þess að auka hlut okkar í félaginu á ný," sagði Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, í samtali við Viðskiptablaðið, þegar kaupin áttu sér stað.