„Fyrir tuttugu árum keyrðu ferðamenn bara í gegnum Húsvík en það er breytt," segir Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga og sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. „Ég held að það hafi tekist að gera Húsavík að áfangastað ferðamanna. Þó sífellt fleiri ferðamenn gisti í bænum þá er umræðan sú að töluverð sóknarfæri séu enn til staðar — að það sé mögulegt að fá fleiri til að gista og gista lengur en þeir gera í dag. Við þurfum aðeins meiri fjölbreytni í afþreyingu og þess vegna bindum við meðal annars vonir við sjóböðin á Húsavíkurhöfða.

Þá skiptir líka mjög miklu máli að hringvegurinn í kringum Dettifoss verði kláraður. Miðað við síðustu yfirlýsingar stjórnmálamanna mun það gerast innan þriggja ára. Samfara þessu verður töluverð breyting á ferðalögum ferðamanna. Í dag fer fjöldi ferðamanna með hópferðabílum frá Akureyri upp að Mývatni og Dettifossi og tilbaka. Þegar þessi hringur klárast munu þeir fara sömu leið að Dettifossi en þaðan niður í Kelduhverfi, þjóðgarðinn, og hringinn til Húsavíkur. Þetta mun hafa nokkur mikil áhrif hér á Húsavík og öllu Norðausturhorninu."

Stjórnstöð ferðamála og Rannsóknarmiðstöð ferðamála við Háskólann á Akureyri hafa rannsakað efnahagsleg áhrif ferðamennsku á sveitarfélög. Í grófum dráttum eru fyrstu niðurstöður þær að sveitarfélögin beri lítið úr býtum.

„Ef ég rýni í rekstrartölur Norðurþings sem sveitarfélags þá er eitthvað til í þessu," segir Óli. „Skattlagning vegna virðisauka kemur að engu leyti til sveitarfélaga heldur fer beint í ríkissjóð. Vinnuaflið, sem tengist ferðaþjónustunni, er færanlegra sem þýðir að útsvarstekjurnar skila sér ekki alltaf. Það eru tvær leiðir færar til að bæta úr þessu. Annars vegar að láta skattlagninguna, hvort sem hún er tengd virðisauka, komugjöldum eða einhverju álíka, renna beint til sveitarfélaganna. Hins vegar gæti ríkið tekið að sér uppbyggingu innviða sem tengjast ferðamennsku í sveitarfélögum."

Kjarni málsins

„Þó ég taki að vissu leyti undir þennan barlóm um hvað sveitarfélögin beri lítið úr býtum þá er ég svolítið á hinum endanum. Á Húsavík höfum við séð lítinn hefðbundinn sjávarbæ kúvendast. Bærinn varð fyrir miklum skellum í atvinnulífinu, tilfærslu á kvóta, kaupfélagið fór á hausinn og sjávarútvegsfyrirtæki lokuðu. Þrátt fyrir þetta hefur íbúafjöldinn haldið sér nokkurn veginn síðustu ár, allavega miðað við þau áföll sem hafa dunið á og það er túrismanum að þakka. Ég er mjög bjartsýnn á búsetu á Húsavík til framtíðar. Ferðamennskan hefur skapað innviði fyrir unga fólkið og það finnst mér vera svolítið kjarni málsins."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .