Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn KFC hafi ekki hagað sér í samræmi við lög eftir að upptöku úr öryggismyndavélakerfi á veitingastað fyrirtækisins í Mosfellsbæ var dreift á Facebook.

Kona sem kvartaði við Persónuvernd sagðist hafa tekið úlpu í misgripum af veitingastaðnum. Hún hafi haldið að úlpan tilheyrði syni sínum þar sem hún hafi líkst úlpu hans en síðar hafi komið í ljós að hann hefði komið úlpulaus inn á staðinn.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að faðir drengsins sem átti úlpuna hafi fengið að aðgang að öryggismyndavélum fyrirtækisins til að komast að því hvað orðið hefði um úlpuna. Þar hafi maðurinn tekið myndir af skjá myndavélakerfisins, þar sem kvartandi sést taka úlpuna. KFC segir að honum verið tjáð að hann mætti undir engum kringumstæðum birta myndirnar opinberlega heldur væru þær eingöngu fyrir lögregluna sem hann hafi sagst vera á leiðinni. Hann hafi hins vegar birt myndirnar á Facebook, en fyrirtækið hafi strax haft samband við hann með Facebook-skilaboðum þar sem honum hafi verið tjáð að hann væri að brjóta lög og yrði að taka efnið út. Ekki hafi borist svar fyrr en um fjórum klukkustundum síðar þar sem hann hafi sagt málið leyst þar sem úlpunni hefði verið skilað.

KFC segist harma þennan atburð og að í kjölfar hans hafi verið skerpt á vinnureglum um öryggismyndavélakerfi þess. Þá hafi verið send út tilkynning til allra sem hafi aðgang að öryggismyndavélakerfunum, en þar segi m.a. að ekki megi undir neinum kringumstæðum veita utanaðkomandi aðilum aðgang að þeim og að alls ekki megi afhenda, afrita eða dreifa vöktunarefni.

Persónuvernd segir ljóst að KFC hafi ekki farið að lögum þegar manninum var veittur aðgangur að umræddum upptökum. KFC skal senda Persónuvernd verklagsreglur um hvernig fyrirtækið muni tryggja að óviðkomandi verði ekki veittur aðgangur að efni sem safnast við rafræna vöktun þess fyrir eigi síðar en 15. nóvember 2017.