Þýski bankinn KfW gaf út krónubréf að virði þrír milljarðar króna í dag, samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Landsbanka Íslands, og er útgáfan stækkun á flokki sem er á gjalddaga í ágúst á næsta ári.

Landsbankinn bendir á að KfW hafi áður gefið út þrjá milljarða í flokknum og nemur heildarstærð hans nú sex milljörðum. Bréfin bera 11,75% vexti, en skráð kaupkrafa þeirra var 12.74% í dag, segir í Vegvísi Landsbankans.

Greiningardeildin segir útgáfuna þá fyrstu síðan  Landsbankinn sá um 25 milljarða útgáfu þann 6. mars síðastliðinn fyrir austurríska ríkið. Útistandandi krónubréf nema nú alls um 357 milljörðum króna og eru 15 milljarðar á gjalddaga á fimmtudaginn.