Útgerðarfélagið KG Fiskverkun hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Valafells. Ekki er greint frá kaupverðinu í fréttatilkynningu. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

KG Fiskverkun gerir út skipið Tjald SH 270 með heimahöfn í Snæfellsbæ og rekur þar fiskvinnslu. Fyrirætlanir KG Fiskverkunar er að efla enn frekar starfsemi sína í Snæfellsbæ, að því er kemur fram í tilkynningunni. KG Fiskverkun er í meirihlutaeigu Daða og Fannars Hjálmarssona. Félagið á 5% hlut í Brim sem er nú um 6,5 milljarðar króna að markaðsvirði.

Valafell er rótgróið útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Snæfellsbæ sem rekur sögu sína allt til ársins 1961. Fyrirtækið gerir út Ólaf Bjarnason SH 137, sem er 112 lesta bátur, smíðaður á Akranesi árið 1973 og er gerður út á dragnót og net. Árið 1990 tók fyrirtækið í notkun nýtt fiskvinnsluhús og rak þar saltvinnslu til ársins 2011 en þá var saltfiskvinnslan flutt í stærra húsnæði eftir miklar endurbætur og ný tæki keypt til fiskvinnslu.

Eignir Valafells námu 675 milljónum króna í árslok 2020. Eigið fé var 87 milljónir og skuldir 581 milljón. Afkoma félagsins var neikvæð um 32,5 milljónir á síðasta ári en 27,5 milljóna hagnaður var af starfseminni árið 2019.

Björn Erlingur Jónasson og Kristín Vigfúsdóttir, fráfarandi eigendur Valafells:

„Við erum mjög ánægð með að samningar hafi tekist við KG Fiskverkun og þannig tryggt að starfsemin verði áfram í heimabyggð og bindum miklar vonir við að hún verði efld enn frekar.“

Daði Hjálmarsson, framkvæmdastjóri KG Fiskverkunar:

„Við erum mjög þakklát fyrir það traust sem þau Kristín og Björn Erlingur hafa sýnt okkur og hlökkum til að takast á við nýjar áskoranir.“