Temasek, fjárfestingarfélag sem er í eigu ríkisins í Singapúr, hefur keypt allan hlut stærstu hluthafa Standard Chartered bankans, Khoo fjölskyldunnar. Alls er um að ræða 11,55% hlut í Standard Chartered, en Standard Chartered er banki sem hefur höfuðstöðvar í London og sérhæfir sig í viðskiptum á vaxandi efnahagssvæðum.

Alls eru hlutirnir 152,4 milljónir talsins og gaf Temasek ekki upp hvað félagið hefði borgað fyrir þá, en kunnugir segja að verðið hafi verið eilítið undir markaðsverði Standard Chartered. Á mánudaginn stóð gengið í 15,24 pundum og hafði hækkað um 7 pens frá föstudegi. Samkvæmt því gengi kostaði hluturinn 2,3 milljarða punda, eða 290 milljarða króna, en Temasek átti áður 0,07% í Standard Chartered. Tilkynningin um kaupin kom eftir lokun markaða á mánudaginn.

Með sölunni er bundinn endi á vangaveltur sem uppi hafa verið í marga mánuði, en höfuð Khoo fjölskyldunnar, Khoo Teck Puat lést fyrir tveimur árum. Hann átti 13% í Standard Chartered. Í kjölfar fráfalls hans var því spáð að erfingjarnir myndu selja hlutinn, sem myndi svo verða til allsherjar yfirtökubaráttu um félagið.

Mervyn Davies, framkvæmdastjóri Standard Chartered, hefur verið þökkuð batnandi afkoma bankans á síðustu árum. Þegar hann tók við árið 2001 setti hann bankanum metnaðarfull markmið, m.a. að hækka arðsemi eigin fjár úr 12,3% upp í 20%. Hann efldi áhættustýringu innan bankans og breytti uppbyggingu hans -- dró úr lánveitingum til fyrirtækja sem gleyptu mikið fjármagn en skiluðu lítilli ávöxtun. Hlutabréf í Standard Chartered hafa á síðustu tveimur árum hækkað um 50% og er sú hækkun rakin til aðgerða Davies.