Suður-kóreski bílaframleiðandinn Kia Motors náði nú í mars þremur merkum áföngum í framleiðslu í kjölfar mikillar eftirspurnar eftir Kia bílum á helstu markaðssvæðum heimsins. Verksmiðja Kia í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Pyeongtaek Port í Suður-Kóreu, framleiddi 10 milljónasta Kia bílinn á heimsvísu sl. fimmtudag, 24. mars. Var um að ræða hvítan Kia Optima sem var síðar um daginn fluttur á markað í Bandaríkjunum. Af þessum 10 milljón Kia bílum hafa rúmlega fimm milljónir þeirra verið framleiddir á síðustu fimm árum sem sýnir mikla sókn suður-kóreska bílaframleiðandans.

Greint er frá í fréttatilkynningu frá Öskju, sem er með umboð fyrir Kia á Íslandi.

Úr fréttatilkynningu:

Verksmiðja Kia í Zilina í Slóveníu, sem framleiðir Kia bíla fyrir Evrópumarkað, hefur átt fullt í fangi með að anna eftirspurn. Verksmiðjan framleiddi alls 229.500 Kia bíla  árið 2010 sem er 52 prósent aukning frá árinu 2009. Vélaframleiðsla Kia jókst einnig mikið á síðasta ári, eða um 31%, en framleiddar voru rúmlega 320.900 vélar í nýja Kia bíla.

„Síðasta ár var framúrskarandi gott fyrir Kia Motors og við stefnum að því að halda áfram á sömu braut og styrkja enn frekar stöðu fyrirtækisins. Sú staðreynd að um fimm milljónir Kia bíla hafa verið framleiddir á síðustu fimm árum er sönnun þess að fyrirtækið hefur náð takmarki sínu að vera komið í hóp stórra bílaframleiðanda á heimsvísu,“ segir Benny Oeyen, aðstoðarforstjóri markaðs- og framleiðslumála hjá Kia Motors í Evrópu.

„Nýi sportjeppinn Kia Sportage hefur fengið mjög góðar viðtökur í Evrópu og hefur salan gengið framar vonum. Með frumsýningum á nýjum Picanto og Rio á næstu mánuðum erum við mjög bjartsýnir á áframhaldandi sigurgöngu Kia bíla,“ segir Oeyen ennfremur.

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi, segir ljóst að þessi sterka staða fyrirtækisins í framleiðslu og sú mikla eftirspurn sem er eftir Kia bílum á öllum helstu markaðssvæðum heims sýni svo ekki verður um villst að þeir séu að slá í gegn víða um heim. „Þarna spilar margt inn í eins og falleg hönnun, gæði, öryggi og mikil sparneytni. Þá er 7 ára verksmiðjuábyrgð á öllum nýjum Kia bílum sem er einsdæmi,“ segir Jón Trausti.