*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 11. ágúst 2010 08:00

KIA með Sportage í nýjum búningi

er einkum ætlað að keppa um markaðshylli við Nissan Qashqai jepplinginn

Ritstjórn

Kóreanski bílaframleiðandinn KIA er nú að koma með nýja útfærslu á Kia Sportage smájeppanum sínum sem kom fyrst á markað 1995. Er honum einkum ætlað að keppa við Nissan Qashqai.

Nýi Kia Sportage bíllinn verður í fyrstu eingöngu boðinn með leðurinnréttingu og ýmsum þægindum eins og bakkmyndavél. Er þessi bíll sá fyrsti sem hannaður er að öllu leyti undir stjórn Peter Schreyer sem er yfirmaður hönnunardeildar og kom úr herbúðum Audi árið 2006. Hann er m.a. frægur fyrir að hafa hannað Audi TT sportbílinn.

Nýi bíllinn verður með öllu því besta sem komið hefur úr vélbúnaðarsmiðju Kia. Þar má t.d. nefna 2 lítra 134 hestafla dísilvél og rafeindastýrt fjórhjóladrif sem á að hámarka eldsneytissparnað. Áætlað er að bíllinn kosti 20.777 pund í Bretlandi, en greiða þarf aukalega 1.230 pund fyrir sjálfskiptingu og sérvalda liti á innréttingu.

Búist er við að þetta 2011 módel af Kia Sportage komi á markað í Bretlandi nú í september.