*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. maí 2020 11:40

Kíkti í heimsókn til Play

Eftir að hafa sakað forsvarsmenn Play um gerviverktöku og skattaskjólsbrask var formaður VR boðinn í heimsókn.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þáði boð forsvarsmanna flugfélagsins Play um að koma í heimsókn, kynnast starfsfólkinu og kynna sér hugmyndafræðina á bakvið félagið. Ástæðan fyrir boðinu voru ummæli sem Ragnar Þór lét falla á mánudaginn vegna fréttar um að flugfélögin Bláfugl og Play gætu mögulega fyllt skarðið yrði Icelandair gjaldþrota.

Velti Ragnar Þór þeirri spurningu upp hvort þetta væri virkilega leiðin sem við vildum fara. „Að fá hér flugfélög í skattaskjólsbraski sem veigri sér ekki við að úthýsa störfum til Indlands eða Filippseyja eða hverra landa sem réttindi og laun eru lægst fyrir mestu vinnuna? Setja svo restina á gerviverktöku í gegnum starfsmannaleigur? Þó ekki sé út frá flugöryggis sjónarmiðum hlyti metnaður okkar að vera meiri en þetta.“

Þessi, sem Ragnar Þór lét falla á mánudaginn, féllu í grýttan jarðveg hjá forsvarsmönnum Play. Höfðu þeir samband við hann og gerðu alvarlegar athugasemdir.

„Úr varð að forsvarsmenn Play buðu mér að koma í heimsókn og kynnast fólkinu og hugmyndafræðinni á bakvið félagið,“ skrifaði Ragnar Þór á Facebook í morgun. „Ég að sjálfsögðu þáði það boð enda ekki annað í boði en að standa fyrir máli sínu sé þess óskað.“

Mistök að tengja Bláflugl og Play saman

Segir Ragnar Þór að þetta hafi verið áhugaverð tveggja klukkustunda heimsókn, þar sem farið hafi verið yfir málin með stjórnendum og starfsfólki.

„Ekki grunaði mig hversu umfangsmikil starfsemin er orðin, metnaðurinn, og kjörin sem félagsmenn okkar eru á. Það kom mér á óvart hversu langt þetta er komið en um 40 manns starfa hjá félaginu, margir með mikla reynslu af flugrekstri.

Ég er ekki hafin yfir gagnrýni og viðurkenni fúslega ef ég hleyp á mig eða geri mistök. Eftir að hafa fundað með þessu kraftmikla og metnaðarfulla fólki varð mér ljóst að það voru mistök að tengja þessi tvö félög, Bláfugl (e. Bluebird Nordic) og Play, með þeim hætti sem ég gerði og harma ég það mjög.“

Ragnar Þór segir að Play verði vitanlega að njóta vafans þar til „annað kemur í ljós“.

„Ég spurði á fundinum hvort við gætum sannreynt kjör og kjarasamninga starfsfólks félagsins í ljósi ýmissa fullyrðinga sem við höfðum innan úr verkalýðshreyfingunni og var það auðsótt mál og ekkert sem bendir til þess að hægt sé að bendla félagið við þau orð sem voru látin falla í færslu minni þann 18.maí."

Óskar Play velfarnaðar og vonar Icelandair haldi velli

„Ég vona svo sannarlega að markmið forsvarsmanna Play um kjör þeirra sem munu starfa fyrir félagið standi og að eignarhald og fjármögnun félagsins verði opin og gagnsæ. Ég óska þessu dugmikla fólki alls hins besta.

Ég vona líka að Icelandair haldi velli og hér muni ríkja heiðarleg samkeppni um flugsamgöngur, neytendum til mikilla hagsbóta og þúsundum starfa sem undir eru í íslensku samfélagi.“

Stikkorð: VR Bláfugl Play Ragnar Þór Ingólfsson