Stofnfiskur flytur út um 60 milljónir lifandi laxahrogna á þessu ári. Söluverðmæti hrognanna er einn milljarður króna. Hrognin vega 10 tonn og kostar kílóið því 100 þúsund krónur.

Fjalllað er um Stofnfisk í Útvegsblaðinu. Það segir m.a. að fullyrða megi að ekkert útflutningsfyrirtæki fái hærra verð á hvert kíló af útflutningsafurðum sínum. Þá segir að hvert lifandi hrogn skili að meðaltali tveimur kílóum af laxi úr eldi og ættu þau að gefa af sér um 120 þúsund tonn af laxi. Þegar framleiðslugetu miðað við núverandi aðstæður verði náð að fullu geti Stofnfiskur framleitt og selt hrogn sem skili 400 þúsund tonnum af laxi.

Stofnfiskur verður 22 ára á næsta ári og flytur mikið af hrognum út til Chile. Gert er ráð fyrir að framleiðslugetan verði komin yfir 100 milljón hrogn á næsta ári.