Stolt Sea Farm, sem rekur fiskeldisstöð um 10 kílómetra fyrir sunnan Hafnir á Reykjanesi, hóf í desember tilraunaeldi á styrju. Í bígerð er sem sagt að hefja kavíarframleiðslu þegar fram líða stundir. Styrjuhrogn eða kavíar er einhver verðmætasta fiskafurð sem fyrirfinnst en algengt er að kílóverðið sé í kringum 300 þúsund krónur.

Áður en seiðin komu í eldisstöðina hjá Stolt Sea Farm höfðu þau verið í fjögurra vikna sóttkví í Sandgerði. Rúmum tveimur mánuðum eftir innflutning höfðu seiðin dafnað vel sem gefur góð fyrirheit um framtíðina.

Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm, segir að styrjueldi sé mikil þolinmæðisvinna. Það taki um 9 til 10 ár að ala styrjuseiði fram til kynþroska. Að hefja svona eldi sé því ekki ósvipað og að hefja framleiðslu á góðu viskíi. Biðin eftir fyrstu „uppskerunni“ taki mörg ár. „Við erum bara með 200 fiska, þannig að þetta er mjög lítið enda bara tilraun,“ segir Halldór.

„Við teljum að aðstæður hér séu mjög góðar en við þurfum mikið af vatni í þetta eldi og það þarf að vera svona 15 gráðu heitt og með ákveðið seltumagn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .