Á fundi Kim Jong-Un leiðtoga kommúníska einræðisríkisins Norður Kóreu og Donald Trump Bandaríkjaforseta í Singapúr í nótt náðist samkomulag um að vinna að því að kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga og skiptast á líkamsleifum hermanna ríkjanna.

Lýsti Trump yfirlýsingu leiðtoganna sem mjög mikilvægri og frekar viðamiklu, en neitaði til að byrja með að segja til um hvað það fæli nánar í sér.  Mynd af samkomulaginu sýnir hins vegar að í raun felst samkomulagið í því að viðræðum verði haldið áfram og samskipti ríkjanna þróuð áfram, þó ekki sé farið í það nákvæmlega hvernig það er gert.

Jafnframt felur samkomulagið í sér að báðar hliðar þess munu leita að og finna líkamsleifar þeirra sem teknir voru föngum í Kóreustríðinu og létust í átökunum og senda þær til baka.

Samkomulagið nær yfir fjóra meginpunkta:

  1. Bandaríkin og Norður Kórea heita að þróa nýtt samband ríkjanna í takti við þrá íbúa beggja ríkjanna fyrir frið og hagsæld.
  2. Bandaríkin og Norður Kórea munu sameinast í markmiðum sínum að koma á stöðugri friðarsátt á Kóreuskaga.
  3. Norður Kórea heitir því að standa við Panmunjom samkomulagið frá því í 27. apríl síðastliðinn við Suður Kóreu um algera kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans.
  4. Bandaríkin og Norður Kórea heita því að finna líkamsleifar af þeim sem létust í Kóreustríðinu eða voru teknir fanga og senda þegar í stað til hvors annars það sem þegar hefur fundist.