Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag og voru það helst áhyggjur fjárfesta af minnkandi einkaneyslu sem hafði áhrif á markaði að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en það voru helst tækni- og bílaframleiðendur sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði LG Electronics um 9,6% eftir að greiningardeildir í Asíu spáðu því að minna yrði selt af rafmagnstækjum frá Asíu til Vesturlanda á næstu misserum. Aðrir rafmagnstækjaframleiðendur lækkuðu einnig þó ekki væri það jafn mikið og LG.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði í dag um 1,8% og hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi í um tvær vikur.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 1,8%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 1,7%, í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,1% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 0,3%.

Mest var þó lækkunin í Kína þar sem CSI 300 vísitalan lækkaði um 3,5%.