Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segir landið hafa fengið fimm milljarða dali frá Kína. BBC News greinir frá þessu.

Fjárhæðin jafngildir 684 milljörðum íslenskra króna. Tilkynning forsetans kemur þremur mánuðum eftir að hann ferðaðist til Kína en landið hefur undanfarin ár fjárfest mikið í starfsemi innan Venesúela.

Efnahagsástandið í Venesúela er vægast sagt slæmt nú um stundir. Þrátt fyrir að landið búi að miklum olíulindum hafa kjör borgaranna farið hratt versnandi undanfarin ár. Rekin hefur verið sósíalísk stefna í landinu, en nú er orðið ómögulegt fyrir marga að sjá sér og sínum fyrir farborða. Stjórnvöld þar í landi kenna lækkandi olíuverði um ástandið.

Forsetinn vill ekki gefa út hvernig þessum fjármunum verður varið, en eftir heimsókn hans til Kína í janúar síðastliðnum sagði hann Kínverja viljuga til þess að fjárfesta fyrir meira en 20 milljarða dali í Venesúela. Ekki hefur komið fram hvort milljarðarnir fimm séu hluti af þeirri fjárhæð.