*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 26. desember 2020 20:19

Kína framúr Bandaríkjunum 2028

Vegna Covid mun hagkerfi kommúnistaríkisins fara fram úr því bandaríska fimm árum fyrr en áður var búist við.

Ritstjórn
Auk áhrifa kórónuveirufaraldursins eru áherslur kommúnískra stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Kína á hátækni sagðar vera að skila sér í því að hagkerfi landsins verði það stærsta í heimi árið 2028.
Aðsend mynd

Hagkerfi Alþýðulýðveldisins Kína verður stærsta hagkerfi heims árið 2028, fimm árum áður en fyrri spár hafa sagt í nýrri spá breskrar hugveitu. Í skýrslunni segir jafnframt að um árabil hafi verið efnahagsleg samkeppni milli Bandaríkjanna og Kína en með áhrifum veirufaraldursins hafi Kína náð að síga fram úr.

Breska hugveitan Economics and Business Research segja að snjöll meðferð stjórnvalda í kommúnistaríkinu Kína á Covid 19 veirufaraldrinum hafi tekist að bæta hag landsins í samanburði við Bandaríkin og Evrópu á næstu árum.

Spáin gerir ráð fyrir því að bandaríska hagkerfið muni vaxa um 1,9% á árabilinu 2022 til 2024 en hagvöxturinn minnki eftir það í 1,6% á ári. Kína muni hins vegar vaxa um 5,7% árlega til ársins 2025 og um 4,5% árlega frá 2026 til 2030.

Þar með verði hlutfall Kína af hagkerfi heimsins sem var einungis 3,6% árið 2000 og er komið í 17,8%, verði hátekjuhagkerfi árið 2023 samkvæmt skýrslunni. Þrátt fyrir það verði meðaltekjur hvers Kínverja í alþýðulýðveldinu mun lægri en meðal Bandaríkjamannsins.

Ekki er talað um stöðuna í Lýðveldinu Kína, sem alla jafna er kallað Taiwan sem tókst að stöðva útbreiðslu veirunnar í samfélaginu í meira en 250 daga þangað til fyrsta staðfesta innanlandssmitið varð þar í landi nokkrum dögum fyrir jól frá því 12. apríl.

Áherslur á hátækniiðnað að skila sér

Hagkerfi alþýðulýðveldisins er sagt njóta þess þess bæði að hafa náð stjórn á veirufaraldrinum snemma, en einnig stefnu stjórnvalda um að koma á hátækniframleiðslu að mati Douglas McWilliams aðstoðarstjórnarformaður samkvæmt grein BBC um niðurstöður skýrslunnar.

Á sama tíma spáir hugveitan að Indland verði þriðja stærsta hagkerfið árið 2030, en spár hugveitunnar koma fram annan í jólum ár hvert. Samkvæmt spánni mun hagkerfi Bretlands vaxa um 4% á ári á árunum 2021 til 2025 í kjölfar þess að útganga landsins úr ESB og reglugerðarumhverfi þess tekur endanlega gildi, en svo um 1,8% álega frá 2026 til 2030, eftir samdrátt í ár.

Indland er sagt hafa farið fram úr breska hagkerfinu árið 2019 en fallið aftur fyrir á ný vegna áhrifa Covid, og muni ekki komast fram úr á ný fyrr en 2024. Það muni hins vegar fara fram úr Þýskalandi árið 2027 og svo Japan árið 2030.

Bandaríkin farið verr út úr faraldrinum en Kína

Þótt veirusjúkdómurinn hafi fyrst komið upp í Kína, nánar tiltekið í borginni Wuhan sem veiran var lengi framan af kennd við, telja skýrsluhöfundar að harðar aðgerðir stjórnvalda hafi tryggt að efnahagslegar afleiðingar faraldursins hafi ekki verið jafnslæmar fyrir alþýðulýðveldið eins og í Evrópu.

Hagkerfi Bandaríkjanna hafi þvert á móti farið mjög illa úr faraldrinum sem hafi þar haft einna verstu áhrifin í fjölda dauðsfalla, eða 330 þúsund manns miðað við 18,5 milljón staðfestra smita.

Hins vegar hafi tekist að draga úr efnahagsáhrifunum með örvunaraðgerðum stjórnvalda og peningastefnunni. Hins vegar geti deilur um nýjar viðspyrnuaðgerðir leitt til þess að 14 milljón Bandaríkjamenn verði án atvinnuleysisbóta á nýju ári.

Stikkorð: Bandaríkin Kína hagvöxtur Bandaríkin Kína Covid 19