Afar líklegt þykir að hlutverk Kína verði stórt í stækkun björgunarsjóðs evruríkja, að því er Financial Times greinir frá. Leiðtogar ríkjanna sömdu í dag um nánari útlínur um hvernig brugðist verði við vanda skuldsettra ríkja myntsambandsins, sér í lagi Grikklands. Meðal annars verður björgunarsjóður evruríkja stækkaður úr um 250 milljörðum evra í 1000 milljarða.

Samkvæmt frétt FT setja Kínverjar ströng skilyrði fyrir aðkomu sinni. Aðkoma þeirra byggir meðal annars á aðkomu evruríkja og örugg veð þurfa að liggja fyrir lánum Kínverja.

Kínverjar benda á að það sé hagur þeirra að aðstoða evruríkin, þar sem þau eru meðal stærstu viðskiptalanda Kína.