China Investment Corporation (CIC), ríkisfjárfestingasjóður í eigu kínverskra stjórnvalda, er nálægt því að komast að samkomulagi við bandaríska fjárfestingasjóðinn JC Flowers, sem hugðist selja Kaupþingi hollenska bankann NIBC, um leggja fram um 4 milljarða Bandaríkjadala í nýjan sjóð. JC Flowers hefði umsjón með sjóðnum, sem hyggst einblína á fjárfestingar í fjármálastofnunum sem hafa lent í erfiðleikum vegna lausafjárkreppunar á fjármálamörkuðum. Frá þessu er greint í viðskiptablöðunum Wall Street Journal og Financial Times.

Fjárfesting kínverska sjóðsins, sem ræður yfir um 200 milljörðum dala, væri enn ein vísbendingin um vaxandi umsvif og áhrif ríkisfjárfestingasjóða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum samfara þeim erfiðleikum sem vestrænar fjármálastofnanir standa frammi fyrir. Ríkisfjárfestingasjóðir frá Miðausturlöndum og Asíu á undanförnum mánuðum hafa meðal annars fjárfest í bönkum á borð við UBS, Merrill Lynch, Citigroup og Morgan Stanley.

Hin hugsanlega aðkoma CIC að fjárfestingasjóði JC Flowers væri hins vegar ólík þeim fjárfestingum sem Kínverjar hafa áður gert á vestrænum fjármálamörkuðum. CIC myndi aðeins fjárfesta óbeint, sem endurspeglar auknar áhyggjur slíkra ríkisfjárfestingasjóða af þeim hugsanlegu neikvæðu pólitísku afleiðingum sem kaup þeirra í þekktum erlendum fyrirtækjum geta haft.

Fram kemur í frétt Financial Times að ólíklegt þyki að sjóður JC Flowers muni einblína á fjárfestingar í stórum fjármálastofnunum. Fremur er talið að sjóðurinn hyggist horfa til fjárfestinga í smærri bönkum og verðabréfafyrirtækjum, sem ríkisfjárfestingasjóðir hafa hingað til ekki sýnt mikinn áhuga á.