Kínversk stjórnvöld hafa hafnað ásökunum um að þau hafi verið á bak við tölvuárás gegn tæknirisanum Microsoft. BBC greinir frá.

Á mánudaginn bættist Nýja-Sjáland í hóp vestrænna ríkja sem hafa ásakað Kína um að brjótast inn í tölvukerfi Microsoft Exchange. Áður höfðu Bandaríkin, Bretland og Ástralía ásakað öryggisráðuneyti landsins um að styðja við tölvuþrjóta og tölvunjósnir. Í sameiginlegri yfirlýsingu ásökuðu þau ráðuneytið um að grafa undan alþjóðlegum stöðugleika og öryggi.

Sjá einnig: Microsoft segir Kína að baki tölvuárás

Microsoft hefur áður sagt kínverska hópinn Hafnium vera á bak við árásina en vísbendingar eru um að hópurinn sé ríkisstyrkur. Kínversk stjórnvöld hafna alfarið ásökununum segja þær ástæðulausar og óábyrgar. Þá hafa þau hvatt bandarísk stjórnvöld til að líta í eigin barm og kallað þau „heimsmeistara í tölvuárásum“.

Microsoft Exchange er vinsælt tölvupóstkerfi og hafði árásin áhrif á yfir 30.000 fyrirtæki og stofnanir víðs vegar um heim.