Kína ætlar að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að örva hagkerfi sitt og ýta undir einkaneyslu. Þetta kemur fram í viðtali FT við Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, sem er á ferð um Evrópu til að sannfæra viðskiptalönd Kína um að það muni taka þátt í aðgerðum til að vinna bug á alþjóðlegu efnahagskreppunni.

Í viðtalinu hafnaði Wen Jiabao því að miklum sparnaði í Kína sé að hluta um að kenna hvernig komið er fyrir efnahagsmálum heimsins. Hann hafnaði því einnig að fella gengi kínverska gjaldmiðilsins, renminbi, og sagði að stjórnvöld í Kína þyrftu að halda honum stöðugum og á eðlilegu stigi. Hann sagði að miklar sveiflur í renminbi yrðu stórslys.

Ætla að tryggja um 8% hagvöxt

Mjög hefur dregið úr hagvexti í Kína og hann var 6,8% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Forsætisráðherrann sagði að verið væri að vinna að ýmsum aðgerðum til að tryggja að hagvöxtur yrði um 8% á þessu ári, að því er segir í frétt FT.