Seðlabanki Kína beitir sér nú á gjaldeyrismarkaði með kaupum á gjaldeyri þróunarlanda, að því er kemur fram í frétt Bloomberg.

Til dæmis hefur Kína þrefaldað skuldabréfaeign sína í Suður-Kóreskum skuldabréfum á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í frétt Bloomberg segir að áhugi á að dreifa með þessum hætti gjaldeyrisforðanum sé ekki eingöngu Kínverja, fleiri líta nú til gjaldmiðla þróunarlanda. Þar hefur veik efnahagsstaða Bandaríkjanna og Evrópu mikið að segja.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hagvöxtur þróunarlanda verði að meðaltali 6,4% á næsta ári, um 2,2% meira en ríkra þjóða.

Ekki skoðað íslensk skuldabréf

Kínverski Seðlabankastjórinn var nýverið í heimsókn hérlendis. Þar sagðist hann ekki hafa kannað sérstaklega kaup á íslenskum ríkisskuldabréfum.