Hu Jintao, forseti Kína, segir að Kína sé tilbúið að taka virkan þátt í uppbyggingu og endurreisn alþjóðlegs efnahagslífs. Hann segir að Kína muni leika þar stórt hlutverk.

Forsetinn sagði þetta í ávarpi sem hann hélt í Lima í Perú í dag en það stendur nú yfir leiðtogafundur ríkja Asíu og S-Ameríku á vegum APEC sem er efnahagssamvinurað Asíu og Kyrrahafsríkja.

Hlutur Kína í hagkerfi heimsins hefur vaxið mjög undanfarin ár og hafa áhrif Kína einnig vaxið mikið í samræmi við það. Í ljósi sterkrar stöðu landsins hafa mörg þjökuð ríki leitað til Kína í von um hjálp í efnahagslegum ógöngum sínum. Hingað til hafa stjórnvöld í Kína þó verið treg til þess að taka forystu í þessum málum en nú virðist breyting vera þar á.

Kínversk stjórnvöld hyggjast aðstoða illa settar fjármálastofnanir með því að útvega lausafé auk aðstoðar í mótun efnahagsstefnu ríkja.