Stjórnvöld í Kína samþykktu í dag 600 milljarða bandaríkjadala aðgerðaráætlun sem á að gilda til ársins 2010.

Reuters fréttaveitan hefur þetta eftir ríkisfréttastofu Kína.

Sérfræðingar um málefni Kína, sem Reuters hefur eftir, eru sammála um að aðgerðarpakki Kínastjórnar sé afar umfangsmikill og endurspegli alvarleika efnahagsástandsins. Aðgerðirnar sýna þó að vilji sé hjá stjórnvöldum til þess að taka á vandanum.

Aðgerðirnar eru hluti í alþjóðlegum viðbrögðum með það að markmiði að koma á stöðugleika á efnahag heimsins. Fjármálaráðherrar og aðrir helstu yfirmenn á sviði fjármála í heiminum funda nú um efnahagsvandann í Sao Paulo í Brasilíu.

Útlit er fyrir að helstu hagkerfi heims muni dragast töluvert saman á næsta ári m.a. vegna uppþornaðra lánalína hjá bönkum.