Kína og Evrópusambandið hafa ákveðið að leggja ágreining sín á milli til hliðar og vinna saman að því að takast á við alþjóðlega efnahagskreppu og loftslagsbreytingar.

Þetta kemur fram í SCMP þar sem segir að eftir viðræður í Brussel hafi forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso, tilkynnt að leiðtogafundur þessara aðila, sem féll niður vegna ágreinings um Tíbet, verði haldinn bráðlega, líklega fyrir lok júní.

Viðskipti á milli Kína og ESB hafa aukist hratt á liðnum árum og nema nú um 300 milljörðum evra á ársgrunni. Embættismenn í Brussel lögðu á það áherslu við viðmælendur sína frá Peking að mörkuðum yrði haldið opnum. Mikill vöruskiptahalli er í ESB gagnvart Kína. Hallinn hefur leitt til árekstra í viðskiptum og málshöfðunar vegna innflutnings frá Kína sem talið er að sé undir kostnaðarverði.