Olíueftirspurn Kína gæti dregist saman um helming á næstu tíu árum, segir þýski bankinn Deutsche Bank. Greiningaraðilar innan bankans telja að eftirspurnarspár sem gera ráð fyrir eftirspurnaraukningu séu á villigötum. Um það bil 30% vaxtarins í olíugeiranum á heimsvísu hefur verið Kína að þakka, segir greiningardeildin, en ólíklegt sé að slíkt hlutfall haldi áfram í óbreyttri mynd til lengri tíma.

Að mati Michael Hsueh, greiningaraðila Deutsche, er ólíklegt að olíuneysla Kínverja haldi áfram eins og henni hefur verið spáð - en að þeirra mati mun einkaneysla hins almenna kínverska bílstjóra minnka með árunum. Hsueh telur að spár Alþjóðaorkustofnunarinnar séu næstar raunveruleikanum, en þó of háar með tilliti til neyslu annarra en fyrrnefndra neytenda.

Greinanda Deutsche finnst allra augu hafa beinst að framboði á olíu - en það hefur verið hlutfallslega of hátt síðustu misseri sem hefur að öllum líkindum haft talsverð áhrif á lágt hráolíuverð. Uppgangur rafmagnsbifreiða er ekki stór breyta í greiningu Hsueh, en þrátt fyrir að hann taki notkunaraukningu þeirra ekki sérstaklega til greina er líklegt að þeir muni hafa einhver áhrif.