*

föstudagur, 21. janúar 2022
Erlent 16. ágúst 2010 10:20

Kína orðið næst stærsta hagkerfi heims

Kínverska hagkerfið farið fram úr því japanska

Ritstjórn

Kínverska hagkerfið er orðið næst stærsta hagkerfi heims á eftir því bandaríska. Kína fór fram úr Japan á öðrum fjórðungi þessa árs. Frá þessu var greint snemma í morgun þegar hagstofa Japans greindi frá því að efnahagur Japans væri nú metin á 1,28 billjónir (þúsundir milljarða) dollara en efnahagur Kína 1,33 billjónir dollara.

Ekkert lát hefur verið á vexti kínverska hagkerfisins að undanförnu, þrátt fyrir alheimskreppu. Japanska hagkerfið glímir hins vegar við gömul mein, sem er að erfiðlega gengur að efla fjárfestingu þrátt fyrir að vaxtastig sé nálægt núlli. Landsframleiðsla hefur aukist um 0,5% það sem af er ári í Japan en nálægt 10% í Kína.

Hagvöxtur í Kína hefur verið nálægt 10% á ári undanfarin áratug. Vöxturinn hefur verið gríðarlega hraður í einstökum atvinnuvegum, einkum fasteignaverkefnum og verktakastarfsemi.