Mikil ótti er nú með að fasteignabólan í Kína sé að springa og spá sérfræðingar verðhruni á þriðja ársfjórungi. Á vefsíðu AsiaNews í dag er sagt að milljónir fjölskyldna með millitekjur muni tapa sínum sparnaði ef bólan brestur. Margir hagfræðingar teli það ekki lengur spurningu um hvort, heldur hvenær bólan springi.

Á ráðstefnunni World Economic Forum í Tianjin í Kína í fyrradag, hvatti Wen Jiabao forsætisráðherra Kína allar héraðsstjórnir til að bregðast án tafar við alvarlegum vanda vegna fasteignabólunnar.

Tölur sýna að 64 milljónir íbúða hafa staðið auðar í sex mánuði eða meira. Sérfræðingar sem AsiaNews vitnar til segja að miðað við að meðalfjölskyldan í Kína telji 3 einstaklinga, þá samsvari 64 milljónir íbúða heimilum 192 milljóna manna.

Bent er á að Kínverjar hafi um árabil fest sparifé sitt í fasteignum til að tryggja sig gegn því að peningarnir brynnu upp í verðbólgu. Líta menn þá til þess að fasteignaverð hefur stöðugt verið á uppleið og hækkaði um allt að 50% í stærstu borgum Kína á árinu 2009. Í samanburði er bent á að innlánsvextir sem bankar bjóða eru 2,25% eða lægri en verðbólgan sem hefur verið yfir 3% að undanförnu.

Frank Yao sérfræðingur hjá Neuberger Berman segir að þegar fasteignaverðið verði hærra en fólk ræður við þá geti það leitt til þess að fjárfestar í þessum geira fari á hausinn.

Þá er haft eftir Lilian Liu  hjá FinanceAsia að hlutfalla lána í fasteignakaupum hafi stöðugt verið að aukast. Á árinu 2009 hafi það verið um 50% og tölur sýni að hlutfallið hafi hækkað enn meira 2010. Stjórnvöld hafi reynt að sporna við þenslunni og afleiðingin af því hafi verið 60% samdráttur í sölu fasteigna í 14 stærstu borgum Kína. Nú spái sérfræðingar 20-30% verðfalli á fasteignamarkaði á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Bent er á að víða megi sjá þversagnir. Í Beijing virðist yfirvöld hafa verið að reyna að kæla niður markaðinn. Á sama tíma eru þau með áætlanir um að byggja 5,8 milljónir nýrra heimila til að mæta þörfum fátækustu íbúanna.

Viðskiptafræðingurinn Yi Xianrong varar við ástandinu í People’s Daily, blaði kínverska kommúnistaflokksins. Segir hann marga fjárfesta reiða sig á stöðugar verðhækkanir á húsnæðismarkaði þar sem ofhitnun eigi sér nú stað. „Þetta er alvarleg ógnun við kínverska efnahagskerfið.”