Kína hefur tekið við af Bandaríkjunum sem mesta ógnin við öryggi og stöðugleika í alþjóðakerfinu í augum Evrópubúa, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Financial Times.

Skoðanakönnunin, sem var framkvæmd dagana 27. mars til 8. apríl, leiddi í ljós að 35% aðspurðra í fimm Evrópuríkjum - Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og Spáni - telur Kína meiri ógn við stöðugleika í heiminum heldur en nokkuð annað ríki.

Í Bandaríkjunum nefndu einnig 31% aðspurða Kína, sem var hærra hlutfall heldur en þeirra sem sögðu að mesta ógnin stafaði af Íran og Norður-Kóreu. Því var hins vegar öfugt farið fyrir ári.

Aðgerðir Kínverja til að bæla niður mótmæli og óeirðir í Tíbet, ásamt aukinni samkeppni frá ódýrum kínverskum framleiðsluvarningi, virðist hafa haft þýðingarmikil áhrif á viðhorf Evrópu gagnvart Kína. Hlutfall Evrópumanna sem lítur á Kína sem mesta ógnina við stöðugleika í heiminum hefur næstum tvöfaldast á milli ára.

Ítalir höfðu mestar áhyggjur af Kína, en 47% aðspurðra sögðu Kína vera mestu ógnina við stöðugleika, borið saman við 26% fyrir tæpu ári síðan. Stjórnmálaskýrendur segja að Ítölum gremjist fyrst og fremst ósanngjörn samkeppni frá kínverskum framleiðslufyrirtækjum. Finanancial Times hefur eftir Marta Dassu, framkvæmdastjóra ítölsku hugveitunnar Aspen Institute, að „Kína sé tákngerving alls þess sem Ítölum gremst varðandi aukna alþjóðvæðingu efnahagslífsins".

Það var aðeins á Spáni þar sem almenningur var enn á þeirri skoðun að Bandaríkin væru meiri ógn við stöðugleika heldur en Kína, eða 41% borið saman við 28%. Bandaríkin voru álitin helsta ógnin í alþjóðakerfinu af 29% aðspurðum í Evrópu, sem er þremur prósentustigum minna heldur en síðasta sumar.