Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að veita rússneska fjárfestingarsjóðnum og þróunarbanka Rússlands fjárfestingu upp á 11 milljarða dollara samkvæmt frétt Financial Times . Munu 10 milljarðar dollara fara til fjárfestingarsjóðsins en milljarður dollara til þróunarbankans en stofnanirnar hafa átt erfitt með að ná í lánsfjármagn eftir að vesturlönd settu viðskiptabann á Rússland.

Tilkynnt var um lánveitinguna eftir fund Vladimir Putin Rússlandsforseta með Xi Jinping forseta Kína sem fram fór í Moskvu í dag. Fjármunirnir sem koma frá kínverska þróunarbankanum eru ávöxtur margra ára viðleitni rússneskra stjórnvalda til að fá erlent fjármagn inn í landið. Dregið hefur mjög úr erlendri fjárfestingu í Rússlandi eftir að Bandaríkin auk margra landa Evrópu settu viðskiptabann á Rússland eftir innrás þeirra á Krímskaga árið 2014.

Kínverski þróunarbankinn mun setja upp sameiginlegan fjárfestingarsjóð með rússneska fjárfestingarsjóðnum. Munu fjárfestingar sjóðsins aðallega snúa að verkefnum eru þvert á landamæri Kína og Rússlands. Þá hefur rússneski þróunarbankinn tryggt lánveitingu til 15 ára til að setja upp sjóð sem mun einbeita sér að fjárfestingu í nýsköpun.