Samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis er Kína stærsti framleiðandi fiskafurða í heiminum með um 35% heimsframleiðslunnar. Búist er við að neysla fiskafurða í Kína muni aukast um 40% á tímabilinu frá 2006 til 2020. Hér er því um mikilvægan markað að ræða. Fiskeldi, veiðar, framleiðsla og vinnsla er að stærstum hluta bundin við nokkur héruð í Kína, eða Dalian og Qingdao í norðri og Zhejiang, Fujian og Guangdong í suðri.


Eldi stærra en veiðar
Fiskeldi vegur um 67% af framleiðslu á sjávarafurðum í Kína en veiðar einungis 33%. Af tíu helstu fiskeldistegundum sem ræktaðar eru í sjó eru sex mismunandi tegundir skelfisks. Ferskvatnseldi byggist hins vegar aðallega á vatnakarfa sem er 71% heildarinnar. Kína er leiðandi í rækjueldi í heiminum og búist er við að landið framleiði vel yfir milljón tonn árið 2007.

Mikilvægur samningur Kínverja við WTO
Kína er smám saman að efna þær skuldbindingar sem landið tók á sig með aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (e. WTO). Aðildin hefur tvo meginkosti fyrir kínverskan sjávarútveg, annars vegar lækkun tolla og hins vegar aukinn innflutning sojabauna til Kína sem nota má sem fóður. Evrópusambandið er helsti viðskiptaaðili Kína en útflutningur til Bandaríkjanna er þó einnig mikilvægur.