Seðlabanki Englands hefur birt áhugaverða færslu á bloggsíðu sinni sem útskýrir hversu umfangsmikið hrunið á kínverska hlutabréfamarkaðnum er í raun og veru.

Fergus Cumming, starfsmaður bankans, brýtur niður þær 2,6 billjónir dollara sem þurrkuðust út úr hlutabréfavísitölunum í Shanghai og Shenzhen á 22 daga kafla í sumar. Tekst honum að fanga hversu gríðarlega stór hluti Kína er af heimsmarkaðnum.

Í færslunni kemur fram að tapið á kínverska hlutabréfamarkaðnum jafngildir vergri landsframleiðslu (VLF) Bretlands á árinu 2013. Upphæðin er meiri heldur en samanlögð upphæð lána til breskra heimila.

Þá nemur upphæðin meira en þriðjungi af virði alls gulls sem hefur verið grafið upp úr jörðinni í mannkynssögunni, og þá telur hún meira en tvöfalt magn seðla og mynta af evrum í umferð.

Þess má þó geta að á þeim 12 mánuðum sem liðu fyrir hrunið hafði kínverski markaðurinn hækkað um 5,6 billjónir dollara. Fallið hefur því einungis náð til tæplega helmings þeirrar upphæðar.